Frábært Vetrarmót

Um helgina var Vetrarmót Reykjavíkurskáta haldið á Úlfljótsvatni. Garðbúar mættu með fjölmennt lið og svo skemmtilega vildi til að við vorum með fjölmennustu fálkaskátasveitina á svæðinu.

Við mættum á föstudagskvöldið og farið var beint í setningu á mótinu, farið í nokkra leiki og svo fengu allir kakó og kex áður en við fórum að sofa.

Laugardagurinn var tekinn snemma með ræs kl 8:00. Veðrið var gullfallegt og fengu skátarnir að njóta þess í Víkingaleiknum sem var um morguninn. Þar fengu skátarnir 74 þrautir til að leysa og áttu að safna stigum. Það gekk svona glimrandi vel og enduðu strákarnir okkar, Bleiku Magnúsarnir, í 3.sæti yfir alla. Eftir Víkingaleikana fengu sér allir að borða og söfnuðu orku og við tók póstaleikurinn.

Póstaleikurinn gekk ótrúlega vel og spreyttu skátarnir sig í ýmsum verkefnum eins og að klifra og síga í klifurturninum, renna sér á snjóþotum (helst standandi) og elda úti. Skátarnir voru í leiknum allan daginn en fengu þó smá stopp þar sem Túri bakaði gómsæta köku og kanillsnúða handa öllum.

Fyrir kvöldmatinn fengu skátarnir að hvíla sig og ná aðeins í sig smá hita þar sem tærnar voru orðnar smá kaldar eftir útiveru dagsins og mætti því galvösk í kvöldmat. Eftir matinn var svo öllum skátum smalað saman og allir fengu kyndil (sem hafði verið eitt af verkefnum dagsins) og svo var gengið saman niður í strýtu þar sem kvöldvakan var. Þar var sungið og dansað en svo birtust allt í einu ísbirnir sem voru eitthvað að villast. Þegar kvöldvakan var að klárast fengu skátarnir skilaboð um að ísbirnirnir hefðu týnt hvor öðrum og væru einhversstaðar út í kuldanum og við þyrftum að hjálpa til við að finna þá.

Skátunum var skipt í hópa og fengu vísbendingu og fóru út í nóttina að bjarga ísbjörnunum, þar byrjaði næturleikurinn. Eins og við mátti að búast tók það skátana ekki langan tíma að finna ísbirnina og koma þeim saman við mikla gleði allra sem endaði í svakalegri flugeldasýningu. Inn fóru glaðir skátar og fengu kakó og kex áður en haldið var í háttinn.

Á sunnudeginum fengu skátarnir að sofa aðeins út þar sem þreytan var fremur mikil eftir langan laugardag. Við vöknuðum og gengum frá okkar dóti og héldum af stað í göngu upp að krossi. Allir stóðu sig mjög vel og náðum við öll að komast upp á topp á met tíma! Þegar við komum til baka biðu okkar pylsur og djús og svo fengu skátarnir smá frjálsan tíma áður en við slitum mótinu.

Allir fóru sáttir og glaðir og örlítið þreyttir uppí rútu og héldu heim.

Takk fyrir skemmtilegt mót og það var umtalað af öllum skátaforingjum hvað við eigum flotta og skemmtilega skáta sem tóku þátt í öllu með bros á vör 🙂

Þangað til næst!:)
Óskirnar

 

Categories Uncategorized

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this:
search previous next tag category expand menu location phone mail time cart zoom edit close